miðvikudagur, október 25, 2006

3 mánaða

skírnin

hmmmm...hvað hef ég annað að segja frá? ég er náttl. ekki búin að segja ykkur frá skírninni. Það gekk s.s. bara mjög vel. Ég var skírður í Oddakirkju af séra Guðbjörgu sem nýlega hóf þar þjónustu. Það var fámennt í skírinninni minni, bara mamma og pabbi og afar og ömmur, foreldrasystkin og langömmur og langafar að ógleymdum stóra bróður. Ég grét aðeins en þá aðallega af því mamma hafði því miður ekki tíma til að gefa mér fyrir athöfnina en það var ekkert mikið og allt gekk þetta vel fyrir sig...

pabbi hélt á mér undir skírn og mamma hélt á stóra bróa svo hann sæi almennilega hvað væri að gerast, Tómas móðurbróðir og Kristín föðursystir voru mínir skírnarvottar. Þetta var allt hið besta mál. Sungum skírnarsálminn fyrst (sem gekk frekar illa, kannski af því fólk kunni ekki alveg lagið) en svo eftir skírnina var sungið "Jesús er besti vinur barnanna" svona spes fyrir stóra bróa, það gekk líka miklu betur, það kunna það allir og höfðu gaman af að sjá hvað stóri brói söng af innlifun :O)

svo var fínasta veisla hjá Möggu ömmu og Sævari afa í Nestúninu og ég fékk fullt af góðum skírnargjöfum, ég fékk meira að segja skírnargjöf líka frá fleirum, fékk t.d. bankabók, peninga, gullkross, 2 myndaalbúm, myndaramma, flísgalla, hnífapör, barnabiblíuna (sem stóri brói var fljótur að eigna sér...híhí), rosa flottar buxur og svona postulíns skírnarskó með nafninu mínu og skírnardeginum, takk kærlega fyrir mig allir saman (kiss kiss)

ég fékk s.s. nafnið Tómas Huginn Óskarsson

Tómas
Nafn þetta er fengið úr biblíunni, frá Tómasi sem var einn af lærisveinum Jesú. Þaðan kom nafnið úr grísku þar sem það merkir tvíburi.
Fallbeyging nf: Tómas þf : Tómas þgf: Tómasi ef : Tómasar

samkvæmt þjóðskrá frá nóvember 2005 eru:
855 sem bera nafnið Tómas sem 1. eiginnafn
174 sem bera nafnið Tómas sem 2. eiginnafn

Í Nýja Testamentinu er sagt frá Tómasi sem var lærisveinn Jesú:
En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: "Vér höfum séð Drottin."
En hann svaraði: "Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa."
Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: "Friður sé með yður!" Síðan segir hann við Tómas: "Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður."



móðurbróðir minn heitir Tómas og hann er ekki leiðum að líkjast, hann er allra besti vinur hennar múttu og hefur staðið með henni allar götur síðan hún fæddist (fyrir utan smá atvik í æsku þegar hann ætlaði að losa sig við hana af heimilinu og keyrði vöggunni út úr íbúðinni sem vildi ekki betur til en að vaggan skall á þröskuldinum og amma rétt gat bjargað mömmu...en við erfum það ekkert við hann, hann var ekki búin að kynnast mömmu almennilega þá sko, enda kunni hún ekki að tala!) ... á tíma var mamma kölluð Tómasína því þau voru svo mikið saman :O)


Huginn
Nafn þetta er leitt af nafnorðinu "hugur" sem merkir hugsun, - áræðni.
Huginn hét annar hrafna Óðins í norrænni goðafræði.

Fallbeyging nf : Huginn þf : Hugin þgf: Hugin ef : Hugins

samkvæmt þjóðskrá frá nóvember 2005 eru:
27 sem bera nafnið Huginn sem 1. eiginnafn
8 sem bera nafnið Huginn sem 2. eiginnafn

Óðinn er æðstur guða í norrænni og germanskri goðafræði, þar sem hann er guð visku, herkænsku, stríðs, galdra, sigurs og skáldskapar. Huginn og Muninn voru hrafnar Óðins í norrænni goðafræði og voru tákn visku og spádómsgáfu. Á hverjum degi flugu þeir um allan heim og tóku eftir öllu sem gerðist. Að kvöldi sneru þeir aftur og settust á axlir Óðins. Krunkuðu þeir þá í eyru hans og sögðu honum frá öllu sem þeir höfðu séð og heyrt þann daginn. Þannig vissi Óðinn um hvaðeina, sem gerðist.

mamma vonar að þetta nafn veiti mér visku og hugrekki :o)

svo er víst til fótbotlafélag sem heitir Huginn (við bræður erum þá eins með það)



yfir og út
Hr. Tómas Huginn Óskarsson

0 Athugasemdir:

Skrifa ummæli

<< Home